131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

660. mál
[13:41]

Katrín Ásgrímsdóttir (F):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. félagsmálaráðherra hefur orðið mikil aukning á greiningu á þroskafrávikum. Það er mikilvægt að huga að því að stuðningi verði komið við sem fyrst, eins og einnig kom fram í máli hans. Það er mjög mikilvægt að þessi stuðningur hefjist sem mest á leikskólaaldri frekar en á grunnskólaaldri og það er því mikilvægt að hvatt verði frekar til þess að það byrji sem fyrst.

Það hefur verið þannig að ríkið hefur styrkt stuðning við þessi börn í grunnskólum en ekki í leikskólunum. Sveitarfélögin hafa að öllu leyti séð um þann stuðning og ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé eðlilegt að þetta verði fært til samræmis milli leikskóla og grunnskóla. Sem betur fer hafa þó flest sveitarfélög mikinn sóma af því hvernig þau standa að stuðningi við þessi börn.